| Saga Ástjarnar í 50 ár1946-1996
 Upphaf starfsins      Upphaf sögu Ástjarnar má rekja til þess, er ungur, enskur
					trúboði, Arthur Gook að nafni, kom frá London og settist að á
					Akureyri árið 1905. Þar byggði hann upp frjálsan, kristinn söfnuð,
					sem jafnan síðan hefur verið kenndur við húsið og samkomusalinn
					Sjónarhæð.Árið 1944 gaf breskur liðsforingi Arthur Gook hermannabragga,
					sem nota skyldi til sumardvalar fyrir íslensk börn. Var hann geymdur
					fyrsta árið norðan við samkomusalinn á Sjónarhæð meðan leitað
					var að heppilegum stað fyrir hann. Arthur mundi eftir fallegum
					stað, sem blasti við er hann kom að bænum Ási í Kelduhverfi á
					leið inn í Hljóðakletta, og árið eftir fóru þeir Arthur og Sæmundur
					G. Jóhannesson, samstarfsmaður hans, austur í Kelduhverfi til
					að ræða málin við Sigríði Jóhannesdóttur, húsfreyju í Ási. Nóttina
					áður en þeir gengu á fund hennar tjölduðu þeir í hvamminum við
					Ástjörn. Um morguninn krupu þeir í bæn og báðu Guð að leiða sig
					í erindagjörðum sínum. Er þeir komu í bæjarhlaðið að Ási tók Sigríður
					gestum sínum vel og báru þeir upp erindi sitt. Hún svaraði af
					bragði: "Margir hafa ásælst þennan stað og hef ég neitað öllum,
					en börnunum get ég ekki neitað." Tókust samningar á milli Arthurs
					og Sigríðar um að hún skyldi leigja honum Ástjörn og næsta umhverfi.
					Var nú tekið til óspilltra málanna við að flytja braggann austur.
					Hófst vinna við að reisa hann í júlí 1945 og var verkinu lokið
					að mestu leyti síðla sumars. Arthur og Sæmundur kostuðu þessar
					framkvæmdir að öllu leyti sjálfir og starfið var rekið í nafni
					Arthurs.
 Fyrsta sumarið
      Þann 13. júlí 1946 komu fyrstu börnin til Ástjarnar og dvöldu
					þau í samtals tvær vikur. Fyrri vikuna voru 5 drengir á staðnum
					og síðari vikuna 8 stúlkur. Allt gekk mjög vel í leik og starfi
					og þessar tvær vikur voru fljótar að líða. Starfsfólk þetta fyrsta
					sumar var m.a. Arthur og Kristín kona hans, Sæmundur, Bogi og
					Margrét Magnúsdóttir kona hans og Trausti Sveinsson.Aðstæður þættu vafalítið mjög frumstæðar nú á dögum, því
					að við matseldina þurfti að nota olíuvél og allt vatn var sótt
					í tjörnina. Mjólkin var flutt á mjólkurbrúsum á bát frá Ási, ekkert
					rafmagn var í bragganum, snyrtingin var lítill kamar úti í skógi
					og allan þvott þurfti að þvo í höndunum.
 Arthur lýsir aðstæðum svo í Norðurljósinu í apríl 1947:
 "Eins og áður hefir verið getið, hefir sumarheimili, aðallega
					fyrir unglinga, verið reist á fögrum stað í skóginum við Ástjörn
					í Kelduhverfi. Það tók lítillega til starfa sumarið 1946. Við,
					sem að þessu starfi stöndum, vonumst eftir að fullgera skálann
					í vor. Búið er að afgirða blettinn, sem við höfum tekið á leigu.
					Við höfum einnig fengið skemtilegan fimm-manna róðrarbát úr málmi,
					sem ekki getur sokkið, fótknött og ýmislegt annað, sem við vonum,
					að geri dvölina skemtilegri fyrir unglingana, sem dveljast þar."
 Þess má geta, að börnin voru 11 ára eða eldri og dvölin kostaði
					9 kr. á dag eða 63 krónur á viku.
 Engin kynding var í bragganum fyrstu árin, en nokkru síðar
					breyttu feðgarnir Snæbjörn Magnússon og Stefán sonur hans olíuvélinni
					í miðstöðvarvél og var mikill og góður munur að fá yl í braggann.
					Settu þeir einnig upp vatnsdælu, svo að ekki þyrfti að bera vatnið
					úr tjörninni, og var mjög vinsælt hjá börnunum að fá að pumpa,
					því stundum slæddist eitt og eitt hornsíli með. Á þessum árum
					var aðeins einn bátur í bátaflota Ástirninga og ekki mátti synda
					í tjörninni, því að vatnið var notað til matseldar.
 Börnunum fjölgaði smám saman og urðu þau mest 18 talsins
					í bragganum. Bragginn var lítill og því varð flest starfsfólkið
					að sofa í tjöldum úti í skógi. Stúlkur dvöldu við Ástjörn allt
					til ársins 1952-´53, en með tímanum mótaðist starfið í það að
					vera einungis fyrir drengi og upp komu óskir um að dvölin væri
					lengri. Var hún fyrst lengd í 4 vikur og að lokum í 8 vikur, t.d.
					dvöldu 18 drengir í 8 vikur sumarið 1956.
 Heilsu Arthurs fór stöðugt hrakandi um þetta leyti, enda
					var hann 63 ára er Ástjarnarstarfið hófst. Hvíldi starfið því
					að mestu leyti á Sæmundi, Boga og Trausta Sveinssyni. Árið 1955
					flutti Gook samkvæmt læknisráði til Englands í hlýrra loftslag
					og sama ár afhenti hann söfnuðinum Ástjarnarstarfið. Jóhann Steinsson
					tók við af Arthuri sem forstöðumaður safnaðarins.
 Nýtt hús byggt
      Þótt bragganum væri haldið við sem kostur væri, þá var þörfin
					fyrir nýtt og stærra hús orðin brýn, enda var aðsóknin sífellt
					að aukast og var ekki hægt að anna eftirspurn. Jóhann Steinsson,
					sem var húsasmiður, teiknaði tvílyft timburhús, 160 fermetrar
					að grunnfleti, og var ákveðið að fara af stað með byggingu þess.
					Hófust framkvæmdir sumarið 1956 er grunnurinn var steyptur, og
					bar Jóhann hitann og þungann af byggingu hússins.Haustið 1958 var nýja húsið nær fokhelt og næsta ár var hluti
					hússins tekinn í notkun, en þó var mjög mikið ógert. Í nokkur
					ár var sofið í nýja húsinu en eldað og borðað í gamla bragganum,
					og jafnframt var unnið jafnt og þétt að því að ljúka smíði hússins.
 Bogi kosinn forstöðumaður
      Árið 1959 var svo komið, að Sæmundur treysti sér ekki lengur
					til að veita Ástjarnarstarfinu forstöðu sökum anna. Í febrúar
					1960 var boðað til fundar og var Bogi Pétursson kosinn forstöðumaður
					Ástjarnar. Honum til halds og traust í Ástjarnarnefndinni voru
					kosin Grímur Sigurðsson og Soffía kona hans, Margrét kona Boga
					og María systir hans.Sumarið 1960 var fyrsta sumar Boga sem forstöðumanns. Var
					framkvæmdum við nýja húsið haldið áfram eftir því sem kostur var,
					en þó var aldrei framkvæmt fyrir meira fé heldur en handbært var
					hverju sinni og engin lán voru tekin. Engu að síður var sífellt
					unnið að því að bæta aðstöðuna fyrir börnin og starfsfólkið. T.d.
					var lögð leiðsla úr lind í Áshöfða, en vatnið var áður tekið úr
					lindum í nágrenninu og úr tjörninni. Nokkrum árum síðar mátti
					loksins synda í tjörninni, en það var ekki leyft á meðan vatnið
					þaðan var notað í matseld við Ástjörn og í Byrgi.
 Í um 18 ár var enginn sími við Ástjörn. Þegar nauðsyn krafði
					var hlaupið í símann á bæjunum Byrgi eða Ási, en þörfin varð sífellt
					meira knýjandi. Í kringum 1963 hafði læknirinn á Raufarhöfn samband
					við Boga og sagði honum, að hann teldi það ekki forsvaranlegt
					að hafa engan síma á svo stóru heimili. Það var síðan að öllum
					líkindum næsta sumar eða 1964 að svo vel vildi til, að vinnuflokkur
					frá Pósti og síma var að störfum í sveitinni, og aðeins tveimur
					dögum eftir að Bogi hafði borið upp erindi sitt við Pál Briem
					póst- og símamálastjóra var búið að leggja síma á heimilið! Þetta
					var að sjálfsögðu gamli góði sveitasíminn með aðeins einni línu
					og það var ekki fyrr en sumarið 1986 að sjálfvirki síminn kom.
 Stórum áfanga í byggingu nýja hússins, sem er reyndar nefnt
					Gamla hús í dag, var lokið árið 1963, en þá var eldhúsið tekið
					í notkun. Í húsinu var einnig svefnpláss fyrir um 36 drengi auk
					starfsfólks. Við þessa breytingu minnkaði þörfin fyrir gamla braggann,
					enda lét hann sífellt meira á sjá, og síðustu árin stóð hann auður
					og tómur þar til hann var rifinn vorið 1972.
 Færeyingar byrja að koma
      Sumarið 1963 kom ungur Færeyingur til Ástjarnar, Jógvan Purkhús,
					ásamt þremur löndum sínum. Áður höfðu þrjár færeyskar konur starfað
					við Ástjörn, en segja má, að þetta sumar hafi markað upphaf þeirrar
					miklu og góðu samvinnu, sem Ástjarnarstarfið hefur æ síðan átt
					við Færeyinga. Sú hjálp og aðstoð, sem þeir hafa veitt starfinu
					í gegnum árin er ómetanleg, og er óhætt að segja, að án þeirra
					væri starfið ekki það, sem það er í dag. Má t.d. nefna Victor
					Dánjalsson, sem hefur stutt starfið mjög dyggilega. Rafmagnið heldur innreið sína
      Þann 27. september 1969 má segja að hafi orðið bylting á
					starfseminni, því þá var lagt rafmagn í Gamla hús. Sú breyting
					var til mikils batnaðar og markaði stór tímamót. Þann dag skrifaði
					Bogi í dagbók Ástjarnar:"Komum hér um kl. 4 síðdegis og upplifðum eina mestu gleðistund
					í sambandi við þá framkvæmd að fá rafmagn í húsið. Um leið og
					frá rafmagni hafði verið gengið af Ólafi Jónssyni rafvirkjameistara,
					sem sá um lögn í húsið, kveiktum við á öllum tiltækum ljósum og
					fengum við að sjá hina skemmtilegu birtu innan og var Ástjörn
					eins og höll utan að sjá."
 Þetta þýddi hins vegar einnig, að tími rómantískra kvölda
					við kertaljós leið að mestu leyti undir lok!
 Á 30 ára afmæli Ástjarnar 1976 var lítið hús keypt frá Húsavík
					og fékk það nafnið Hvammur. Var mikil aðsókn að húsinu og til
					mikils að vinna að fá að gista þar og sumir drengirnir sváfu hreinlega
					undir rúmum svo þeir gætu verið í húsinu! Nýir og glæsilegir bátar
					voru vígðir í tilefni afmælisins.
 Maríubúð reist
      Haustið 1977 auglýsti Kröfluvirkjun hús til sölu og fóru
					Bogi og Jógvan austur til að skoða húsið. Þótti ljóst, að þetta
					hús myndi henta mjög vel við Ástjörn. Var rætt við Jón Sólnes,
					sem sá um Kröfluvirkjun ásamt Einari Tjörva. Jón var alla tíð
					mikill Ástjarnarvinur og hvatti hann til þess að húsið yrði keypt.
					Fóru Bogi og Jógvan til Færeyja og kynntu starfið og hugmyndir
					sínar, og fengum þeir fádæma góðar móttökur. Má í raun segja,
					að Færeyingar hafi gefið Ástjörn þetta hús, því að þeir sendu
					strax stórar gjafir, þar til það var að fullu greitt. Húsið var
					síðan reist vorið 1978 og tekið í notkun sama sumar. Liðu aðeins
					44 dagar frá því að byrjað var að grafa grunninn þar til húsið
					var fullbúið. Var því gefið nafnið Maríubúð í höfuðið á Maríu
					systur Boga, en draumur hennar hafði alltaf verið sá, að sérstakur
					svefnskáli yrði reistur við Ástjörn. Með tilkomu þessa húss bættust
					við 24 svefnpláss fyrir drengi og gátu því samtals um 80 drengir
					dvalið við Ástjörn í senn. Að auki var tekinn í notkun í sama
					húsi stór og rúmgóður salur, sem nýttist mjög vel til ýmiss konar
					samverustunda og sem leikaðstaða, en áður hafði orðið að notast
					við borðsalinn. Einnig fékk þvottahúsið og töskugeymslan mun stærra
					húsnæði en það hafði áður haft. Ýmsar framkvæmdir
      Árið 1981 var enn ráðist í stórframkvæmd er 17 metra langt
					hús var keypt og það innréttað fyrir starfsfólk. Þar er nú svefnaðstaða
					fyrir 14 starfsmenn og fékk húsið nafnið Laufskálar.Þann 17. apríl 1985 hringdi Sigurgeir Ísaksson, verslunarmaður
					og bóndi í Ásbyrgi, í Boga og tilkynnti honum, að miklar vatnsskemmdir
					væru á neðri hæð Gamla húss. Var strax brugðist við og haldið
					af stað til að kanna verksummerki. Aðkoman var mjög ljót. Vatnslögn
					hafði bilað með þeim afleiðingum að vatn hafði flætt yfir öll
					gólf neðri hæðar og í borðsalnum var 50 sm djúpt vatn með 10 sm
					þykkum ís. Var strax hafist handa við að brjóta ísinn og ausa
					vatninu út. Var áætlað að um 40 tonn af vatni hafi verið í borðsalnum.
					Tjón var mikið, m.a. eyðilagðist uppþvottavélin og eldavélin auk
					tjóns á gólfi og veggjum. Það kom hins vegar fljótt í ljós, að
					Ástjörn átti marga vini og hjálpfúsar hendur, sem unnu hörðum
					höndum að því að gera allt tilbúið, áður en börnin kæmu. Einnig
					bárust peningagjafir úr öllum áttum. Allt þetta fólk, sem studdi
					Ástjörn á þessum tíma, á miklar þakkir skilið fyrir óeigingjarnt
					starf.
 Þegar litið er til baka og virt fyrir sér allar framkvæmdir
					og breytingar á liðnum áratugum, þá er ekki annað hægt en að þakka
					Guði fyrir alla varðveislu og vernd. Má nefna sem dæmi, þegar
					skólpleiðsla var lögð í gegnum sandölduna norður að veginum. Til
					að ná vatnshalla þurfti að grafa mjög djúpt, eða allt niður á
					8 metra dýpi, og var mikið hættuspil að vinna í skurðinum því
					sandbakkarnir voru mjög gljúpir og vildi hrynja úr þeim. Eitt
					sinn er Bogi og bróðir hans Þorsteinn voru nýkomnir upp úr skurðinum
					létu bakkarnir skyndilega undan og stór sandfylla féll í skurðinn
					og nær fyllti hann. Hefði varla þurft að spyrja að leikslokum,
					ef þeir hefðu verið í skurðinum, en Guð vakti yfir þeim.
 Árið 1986 var haldið upp á 40 ára afmælið með veglegum hætti.
					Veðrið var sérstaklega gott þennan dag og mikill fjöldi manns
					kom í heimsókn í tilefni dagsins.
 Árið eftir var farið að þrengja allverulega að þvottahúsinu
					og töskugeymslunni í Maríubúð og var ljóst, að úrbóta var þörf.
					Niðri á Óseyri á Akureyri var óhrjálegur skúr. Var hann keyptur
					fyrir lítið verð og fluttur austur til Ástjarnar vorið 1988. Hópur
					af Færeyingum, samtals um 18 manns, komu síðan snemma um sumarið
					og breyttu þessum ljóta skúr í fallegt hús, sem síðar hlaut nafnið
					Vatnshlíð. Þvottahúsið og töskugeymslan fluttu sig um set úr Maríubúð
					og fengu mun betri aðstöðu í nýja húsinu, og í Maríubúð voru þrjú
					ný svefnherbergi innréttuð með samtals 11 svefnplássum, þar sem
					þvottahúsið var áður.
 Eins og greint hefur verið frá þá lagðist stúlknadvöl niður
					eftir 7-8 ár og drengir urðu allsráðandi. Sú breyting varð hins
					vegar sumarið 1989, að stúlkum stóð til boða á ný að dvelja við
					Ástjörn. Er óhætt að segja, að sú tilraun hafi gengið vel og hefur
					þeim síðan fjölgað ár frá ári og nú eru stúlkur tæpur þriðjungur
					barnanna. Má segja að vinir Ástjarnar í Færeyjum hafi haft töluvert
					um þessa ákvörðun að segja, því að þeir höfðu hvatt til þess í
					mörg ár, að stúlkum yrði gefið tækifæri til að dvelja við Ástjörn.
 Oft hafði verið rætt um að byggja sérstakt baðhús og vorið
					1994 var ráðist í að byggja hús á Akureyri og flytja austur í
					heilu lagi. Var það síðan tengt við Vatnshlíð og er innangengt
					á milli húsanna, en sturtan í Maríubúð var lögð niður.
 Nýjasta byggingin við Ástjörn er tengibygging á milli matargeymslu
					og Gamla húss og er hún til mikilla bóta fyrir eldhúsið. Þar kom
					mikið við sögu byggingameistari einn úr Færeyjum og reisti hann
					ásamt aðstoðarmönnum sínum þessa byggingu á nokkrum dögum sumarið
					1994.
 Niðurlag
      Þegar litið er yfir farinn veg er margs að minnast. Starfið,
					sem hófst fyrir 50 árum í litlum bárujárnsbragga með nokkrum börnum,
					hefur vaxið mikið og eflst. Bogi Pétursson hefur verið forstöðumaður
					undanfarin 36 ár og um 20-30 manns starfa þar í níu vikur hvert
					sumar, þar af fjölmargir sjálfboðaliðar, bæði íslenskir og færeyskir.
					Að jafnaði dvelja 70-80 börn í 8 vikur og 40 unglingar í eina
					viku. Húsakosturinn er fimm hús og tvö hjólhýsi með svefnrými
					fyrir um 120 manns. Í upphafi var aðeins einn bátur á tjörninni
					en núna eru þeir 28 talsins. Knattspyrnuvöllur, körfuboltavöllur
					og minigolfbraut er meðal þess, sem börnin geta notið, auk margs
					annars. Aðstaðan hefur gjörbreyst á þessum árum en umhverfið er
					hið sama ár frá ári. En góð aðstaða og mikil náttúrufegurð nægir
					ekki eitt sér, þótt það sé svo sannarlega þakkarefni. Í Davíðssálmi
					127:1 segir: "Ef Drottinn byggir ekki húsið erfiða smiðirnir til
					ónýtis." Starfið er grundvallað í Drottni og sækir styrk sinn
					og hjálp þangað. Án þess mikilvæga þáttar væri starfið unnið til
					einskis.Frumkvöðlar Ástjarnar, þeir Arthur Gook og Sæmundur G. Jóhannesson,
					létust árið 1959 og 1991. Hugsjón þeirra og markmið með starfinu
					var að veita börnum tækifæri til að dvelja á fallegum stað og
					heyra jafnframt boðskapinn um Jesúm Krist. Bogi Pétursson, forstöðumaður,
					hefur einnig fylgt þeirri stefnu. Þetta er grundvöllur Ástjarnarstarfsins
					og mun verða það áfram um ókomin ár.
 
 
						Úr afmælisblaði Ástjarnar 1996.
 |