Ástjörn

Góðar sögur

© Sumarbúðirnar Ástjörn, allur réttur áskilinn
Greinar úr Norðurljósinu eru birtar með leyfi. Afritun bönnuð án skriflegs leyfis.

 

Besti vinur hans
Sönn saga

     Drengir nokkrir voru að leika sér nálægt borg í Ástralíu þegar þeir sáu mann koma frá bænum. Hann var mjög fatlaður og gekk við hækjur. Elsti drengurinn, tólf ára gamall, hrópaði til hinna: “Strákar, við skulum bara stríða þessum karli. Sjáið þið, hvað hann gengur skrítilega!” Og þeir hópuðust kringum krypplinginn og hæddu hann.
     Hinn þjáði maður skipti sér ekkert af drengjunum, en staulaðist áfram erfiðlega.
     Þegar elsti drengurinn kom heim til sín, fann hann ekki móður sína þar sem hún var vön að vera. Hann gekk inn í stofuna til að leita hennar og þar sat maðurinn, sem hann hafði leikið svo illa, og var að tala við móður hans.
     ”Æ, æ, nú er hann kominn til þess að kæra mig!” hugsaði drengurinn og reyndi að smeygja sér út áður en þau sæju hann. En það var of seint. Móðir hans sagði við hann: “Komdu Hinrik, komdu og taktu í höndina á vini okkar.”
     Hinrik skammaðist sín, en gekk hægt fram og heilsaði manninum. Maðurinn tók vel á móti honum, eins og ekkert hefði í skorist, og talaði vingjarnlega við hann.
     Þegar hann fór, lagði hann hönd sína á höfuð Hinriks og bað Guð að blessa hann.
     Um leið og hann var kominn út úr dyrunum sagði Hinrik við móður sína og var mikið niðri fyrir: “Mamma, hver er þetta? Segðu mér það! Hvers vegna kom hann til að finna þig? Og hvað gengur eiginlega að honum?”
     ”Jæja, drengur minn, hvað gengur á? Ég hélt að þú þekktir manninn. Sestu nú rólega niður og ég skal segja þér frá honum.”
     Hinrik settist niður og leit til mömmu sinnar með eftirvæntingu.
     ”Þegar þú varst lítill snáði, Hinrik minn, varst þú einu sinni að leika þér niðri við ána. Einhvern veginn kom það fyrir, að þú gekkst of nærri bakkanum og dattst í vatnið. Þessi maður sá til þín og kastaði sér í ána til þess að bjarga þér. Honum tókst það, en mjög kalt var í veðri, svo að honum kólnaði mikið í blautum fötunum og upp úr því fékk hann magnaða gigtveiki. Hann lá lengi milli lífs og dauða, en þegar hann fór að koma til aftur, voru limir hans krepptir og aflagaðir, og hann nær sér víst aldrei til fulls. Hann frelsaði líf þitt, drengur minn, en skemmdi sitt eigið líf fyrir fullt og allt.”
     Nú horfði móðirin hrædd á drenginn, því að hann féll flatur á gólfið og grét hástöfum, eins og hann hefði orðið fyrir óbætandi sorg.
     ”Hvað er að þér, drengur minn? Segðu mér það! Hvernig stendur á þessu?”
     Drengurinn gat lengi ekki komið upp orði fyrir ekka. Loks hrópaði hann:
     ”Æ, mamma! Ég hef strítt honum. Ég hef móðgað manninn, sem hætti lífi sínu fyrir mig! Mun hann nokkurn tíma geta fyrirgefið mér? Æ, mamma, ég get aldrei fyrirgefið sjálfum mér. Ég hef móðgað minn bezta vin!” Og hann hélt áfram að gráta sárum og beiskum tárum.
     Það var einu sinni maður, sem gat aldrei fyrirgefið sjálfum sér það, að hann hafði ofsótt og sært sinn bezta vin. Hann hét Sál frá Tarsus, kallaður Páll postuli. Árum seinna ritaði Sál um hann: “Hann elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.”
     Hvernig hefur þú komið fram gagnvart þínum bezta vini? Hann hætti ekki aðeins lífi sínu fyrir þig, heldur gekk sjálfviljuglega út í pínu og dauða vegna sálar þinnar. Hefur þú fyrirlitið elsku hans? Hefur þú fylkt þér í lið hans? Hefur þú tekið málstað hans og viðurkennt hann sem Drottinn þinn, þegar aðrir hafa ráðist á hann?

Norðurljósið


Smakkaðu

     Biblíusali kom á ávaxtabýli eitt á Norður-Ítalíu, þar sem margir góðir ávextir voru ræktaðir. Þegar hann hitti eiganda býlisins bauð hann honum strax Biblíu á mjög lágu verði um leið og hann benti honum á hve dýrmæt þessi bók væri
     Eigandinn sagði: “Þú segir mér að þessi bók sé orð Guðs, en það er í sjálfu sér enginn sönnun fyrir því.”
     Hinn svaraði þessu ekki beinlínis, en fór að dást að trjánum, sem sliguðust undan gómsætum ávöxtunum. “Það sem þessar perur eru girnilegar,” sagði hann, “en það er bara verst að þær skuli vera svo vondar á bragðið.”
     ”Hvað ertu að segja?” sagði eigandi ávaxtagarðsins. “Svo vondar á bragðið? Þú hefir að öllum líkindum aldrei smakkað þær! Taktu eina eða tvær og smakkaðu!”
     Biblíusalinn gerði eins og hann var beðinn, og þegar hann hafði borðað eina, sagði hann: “Já, þú hefir rétt fyrir þér, perurnar eru mjög góðar, en þá verður þú að gera það sama við bókina mína og ég hefi gert við perurnar þínar. Smakkaðu og þá kemstu að raun um að orð Guðs er gott.”
     Milljónir manna áður fyrr, og milljónir manna nú á okkar dögum hafa ekki aðeins smakkað lítillega af orði lífsins, heldur gleðjast stöðugt í þeim sannleika sem opinberast í því, og vilja því alltaf benda öllum á að: “Finnið og sjáið að Drottinn er góður. Sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.” (Sálm 34:9)

Norðurljósið


Hestarnir, sem dönsuðu

     Það var einu sinni riddaraliðsfylking, sem gerði sér það til skemmtunar, á friðartímum, að kenna hestum sínum að dansa, þegar þeir heyrðu til lúðrasveitarinnar. Það þótti mikil skemmtun, að horfa á þá og vakti aðdáun allra.
     En svo kom ófriður. Riddaraliðið var sent fram til orustu. Skipun kom um það, að gera árás á óvininn, sem var í þann veginn að gera atlögu að þeim.
     Allt var til reiðu. Þá gullu lúðrarnir. En viti menn, í staðinn fyrir að æða fram gegn óvinunum, eins og ætlast var til, stönsuðu allir hestarnir og fóru að dansa! Mennirnir fengu ekki ráðið við þá, allt fór í glundroða. Svo kom fylking óvinanna yfir þá, eins og flóðalda, og flestir þeirra féllu í valinn.
     Eins fer fyrir mörgum í baráttu lífsins. Þeir hafa eytt kröftum sínum í alls konar léttúð, meðan ekkert blés á móti. Alvöru lífsins hafa þeir ekkert hugsað um. Og þegar stormar blása og orustan verður háð fyrir alvöru, lendir alt í glundroða, og þeir bíða hörmulegan ósigur.
     Hinn eini öruggi undirbúningur undir baráttu lífsins er sá, að ganga Jesú Kristi á hönd. Þá “vinnum vér meira en sigur fyrir hann, sem elskaði oss.” (Róm 8:37.)

Norðurljósið


Hvernig lest þú?

     Það er hægt að lesa ritninguna á tvennan hátt. Önnur aðferðin er sú, að lesa hana í þeim tilgangi, að finna í henni staðfestingu á því, sem maður álítur rétt. Þessi lestraraðferð leiðir óhjákvæmilega til andlegs sljóleika og loks til forherðingar, svo að með tímanum verður manni ómögulegt að læra nokkuð meira. Þessi aðferð er því miður hin lang-vinsælli.
     Hin aðferðin er, að lesa ritninguna til þess að vita hvað Drottinn hefir í raun og veru talað, og hvað hann vill í raun og veru að við gerum. Þeim, sem eru fyrir áhrifum sérkenninga eða eru bundnir viðjum einhvers sértrúarflokks, er algerlega ómögulegt að losna að fullu við flokksáhrifin, er þeir lesa Guðs orð. Flokkurinn setur á þá lituð gleraugu, hvort sem þeir vita það eða ekki.
     En ef menn eru einlægir og halda áfram með kostgæfni að lesa ritninguna, og bera saman allt, sem þeir heyra, við kenningar hennar, þá hætta þeir að vera andleg börn, “sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar,” og læra að “ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, – Kristur.” (Ef. 4:14-15). Þá rætist á þeim það, sem frelsarinn sagði: “Ef þér standið stöðugir í orði mínu, þá eruð þér sannarlega lærisveinar mínir, og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.” (Jóh. 8:31-32).

Norðurljósið


Sjáum við lengra í náttmyrkri?

     Getum við séð eins langt í myrkrinu eins og í dagsbirtu? Margir myndu svara: Nei. Samt sem áður getum við séð miklu lengra í myrkrinu, heldur en í dagsbirtu. Þegar dimmt er orðið, getum við séð stjörnurnar á himni, sem við getum alls ekki séð á daginn.
     Eins er það, að við sjáum betur hið himneska, sem hulið er holdlegum augum, þegar náttmyrkur sorgar og saknaðar færist yfir okkur. Guð hefir orðið að leiða marga menn gegnum dimman skuggadal, til þess að augu þeirra opnist, og þeir sjái dýrð Krists og snúi sér til hans.

Norðurljósið


Hvernig ert þú að byggja?

     Í borg einni í New-York fylki í Bandaríkjunum bjó ríkur maður, sem var örlátur við þjónustufólk sitt. Í þjónustu hans var stúlka, sem konu hans líkaði mjög vel við, og þegar hún fór frá þeim til að giftast, vildu þau sýna henni merki þess, hve mikils þau mátu trúmennsku hennar, meðan hún var hjá þeim.
     Maðurinn, sem hún giftist, var húsasmiður, en var því miður latur og óáreiðanlegur. Húsbóndinn vissi ekkert um þetta, en kallaði hann til sín og tjáði honum, að hann ætlaði að byggja hús á lóð einni, sem hann átti í borginni, og bað hann að annast um smíð og innréttingu hússins. “Ég er sjálfur að fara burt úr bænum um nokkra mánuði og verð að reiða mig á þig, að þú gerir hið besta, sem þú getur fyrir mig. Ég ætla að treysta samviskusemi þinni,” sagði hann. En hann sagði honum ekki, til hvers hann ætlaði húsið.
     Húsasmiðurinn hugsaði með sér, að nú væri ágætt tækifæri til að græða. Hann flýtti sér ekkert, keypti ónýtasta efnið, sem hann gat, og gekk yfirleitt svo frá húsinu, að sérfróðir menn álitu það argasta hneyksli. Þegar ríki maðurinn kom heim aftur, eftir langa burtveru, var húsið til, og smiðurinn sagði hróðugur: “Það finnst ekki betra hús en þetta í borginni!”
     ”Þetta þykir mér vænt um,” svaraði húsbóndinn. “Nú ætla ég að biðja þig að skila til konunnar þinnar frá mér, að hún skuli flytja sig sem fyrst í þetta hús, því að við hjónin höfum ætlað að gefa ykkur það, svo að þið getið alltaf átt skemmtilegt heimili, svo lengi sem þið lifið.” Og hann fékk honum skjölin sem eiganda hússins.
     Maðurinn varð agndofa er hann skildi það, að hann hefði ekki verið að svíkja húsbóndann, heldur sjálfan sig! Þau þurftu auðvitað að flytja í húsið og búa í því, og var það honum mátuleg hegning fyrir sviksemi hans.
     Oft stundi hann við og sagði: “Æ, að ég hefði vitað, að ég yrði sjálfur að búa í þessu húsi!” Alltaf komu nýir gallar í ljós, og hann hafði varla við halda húsinu uppi.
     Fáir hugsa um það, að við erum öll í þessu lífi að byggja hið andlega hús, sem við munum um alla eilífð verða að búa í! Byggingarefnið er orð okkar og gerðir, hugsanir okkar og tilfinningar. Allt, sem gerist í lífi líkamans, hefir sín áhrif á framtíðina, því að “það, sem maður sáir, það mun hann uppskera.” (Galat. 6:7)
     Þess vegna er það, að við svíkjum aðeins okkur sjálf, ef við byggjum ekki vel. Fyrst verðum við að koma til Krists, því að “annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur.” “En sérhver athugi hvernig hann byggir ofan á!” (1. Kor. 3:10-11)
     Lærðu af reynslu hins svikula húsasmiðs.

Norðurljósið


Óþekktur ríkdómur

     Ungur maður í Albany, New-York fylki, undi sér ekki heima og strauk burt. Móti vonum gat hann ekki fengið atvinnu og flæktist borg úr borg, uns hann hafði eytt öllu fé sínu.
     Hann var ónýtur að betla og of drambsamur til að snúa aftur heim til ættingja sinna. Tók hann að líða skort, eins og týndi sonurinn í dæmisögunni.
     Bróður hans, er heima var, þótti mjög vænt um hann og reyndi allt, sem hann gat, til þess að hafa upp á honum, en árangurslaust. Þá kom honum til hugar að fá leynilögreglumenn til að leita að honum um allt landið. Eftir nokkkra mánuði fundu þeir hann, yfirkominn af kulda og hungri, í borinni Macon í Georgíu-fylki. Hann hafði þá ekki smakkað mat í heila viku.
     Hugsið ykkur nú undrun þessa strokumanns, er hann frétti það, að afi hans væri dáinn og hefði arfleitt hann að 250.000 dollurum! Hann gat varla trúað þessu, en það var eigi að síður satt.
     Hann hefði ekki þurft að þola kulda, klæðleysi og hungur, því að hann var í raun og veru auðugur maður. En hann hafði strokið úr föðurhúsum og vissi það ekki.
     Hversu margir hafa yfirgefið Guð og þola aumustu andlega fátækt, af því að þeir þekkja ekki hinn órannsakanlega ríkdóm Krists, sem er ætlaður þeim!

Norðurljósið


Prófsteinninn

     Eiríkur hljóp inn í stofuna til móður sinnar og hélt bréfi á lofti. “Ég er búinn að fá svar við umsókninni minni. Ég á að fara til London á morgun til að finna skrifstofustjórann. Það lítur út fyrir, að ég fái stöðuna.”
     Eiríkur hafði lengi verið atvinnulaus og móðir hans var ekkja. Það hafði verið þröngt í búi hjá þeim um tíma. Hann hafði svarað auglýsingu, sem félag eitt í London hafði sett í blöðin, um að það vantaði aðstoðarmann í útibú þeirra í bænum, þar sem Eiríkur átti heima.
     Móðir hans var trúuð kona, og hann hafði sjálfur fyrir nokkru snúið sér til frelsarans. Þau fólu málefni sín Drottni og báðu hann að opna Eiríki veg, ef það væri til góðs.
     Þegar Eiríkur kom á skrifstofuna í London næsta morgun, varð honum bilt við, er hann sá marga aðra unga menn bíða eftir að tala við forstjórann. Nokkrir þeirra virtust vera glæsilegir menn og Eiríkur fór að verða vondaufur um, að hann mundi fá stöðuna.
     Umsækjendur voru látnir fara inn til skrifstofustjórans eftir stafrófsröð og þar sem ættarnafn Eiríks byrjaði á “W” varð hann að bíða lengi og var nærri allra síðastur. Skrifstofustjórinn var að sjá strangur maður, en Eiríkur svaraði spurningum hans rólega og vel, því að hann hafði áður falið sig Drottni. Skrifstofustjórinn tók eftir því að Eiríkur bar merki Biblíulestrarsambandsins í hnappagati sínu, og hann spurði hvað þessir bókstafir þýddu. Eiríkur sagði honum það.
     ”Biblíulestrarsambandið! Og hvað er það?”
     Eiríkur sagði honum stuttlega frá tilgangi sambandsins.
     ”Nú! Þú ert þá einn af þessum trúuðu mönnum! Ég hef ekkert með slíkt að gera sjálfur. Flestir af þessum mönnum eru hræsnarar, held ég.”
     Eiríkur roðnaði, en hann vildi ekki láta þessu ómótmælt. “Ég vil ekki vera hræsnari, herra minn,” sagði hann, “en mig langar mjög til þess að vera trúr lærisveinn Drottins Jesú Krists.”
     Maðurinn svaraði ekki öðru en að nöldra eitthvað, sem Eiríkur heyrði ekki. Þá tók hann upp úr skúffu einni nokkur blöð, sem á voru ritaðar margar tölur í löngum dálkum.
     ”Ég þarf að vita, hvernig þú ert í reikningi,” sagði hann. “Viltu gera svo vel að sitja hérna og leggja þessar tölur saman, en þar sem ég vil líka prófa minnið þitt, ætla ég að biðja þig um að skrifa ekkert fyrr en þú hefur lagt alla dálkana saman. Þá átt þú að skrifa heildarupphæðina. Skilur þú, hvað ég á við?”
     Eiríkur skildi, en honum fannst þetta nokkuð erfitt. Hann var ekki mjög góður í reikningi, en hann ætlaði að gera það, sem hann gæti. Þegar hann var rétt byrjaður, stóð skrifstofustjórinn upp og gekk út úr stofunni.
     Eiríkur var hissa. Nú var hann aleinn. Freistingin greip hann sem snöggvast, þar sem enginn sá til hans, að skrifa tölurnar á miða, hvern dálk fyrir sig, í stað þess að reyna að muna eftir þeim, eins og fyrir hann hafði verið lagt, En þá kom honum undir eins í hug, að Drottinn sæi til hans og það var nóg. Hann hratt freistingunni frá sér og hélt áfram. Hann beindi huga sínum að verkinu og skrifaði ekki tölurnar fyrr en hann hafði fengið heildarútkomuna. Þá opnuðust dyrnar og skrifstofustjórinn gekk inn aftur.
     Hann leit á Eirík með vingjarnlegu brosi.
     ”Jæja, ungi maður, þú breytir samkvæmt játningu þinni. Þú ert fyrsti umsækjandinn, sem ekki hefur svikist um!”
     Eiríkur varð undrandi. Hann skildi ekkert í þessu.
     ”Ó, já,” sagði maðurinn, “ég horfði á þig allan tímann. Ég sagði, að þetta væri prófsteinn á minnið þitt, en það var um leið prófsteinn á heiðarleik þinn.” Og hann benti á lítinn glugga, sem var á hurðinni, sem hann hafði gengið út um, þegar hann yfirgaf stofuna. Gegnum hann hafði hann séð allt, sem umsækjendurnir höfðu gert, án þess að þeir gætu séð til hans.
     Innan skamms gat Eiríkur tilkynnt móður sinni, að hann hefði fengið þessa ágætu stöðu með góðum launum og mæðginin féllu á kné og þökkuðu Guði fyrir hjálp hans, sem hafði varðveitt hinn unga lærisvein á tíma freistninnar.

Norðurljósið


Drottinn, nú er tækifærið þitt!

     Það voru óaldatímar í Kína og herflokkar óðu um landið og rændu og myrtu. Fjölskylda ein, sem átti heima í stórri verslunarborg, hafði liðið mikið, þegar hermenn settust að í húsi þeirra um tíma. Nú voru þeir farnir, en menn óttuðust, að þeir mundu koma aftur.
     Þessi fjölskylda var Múhameðstrúar, en litla dótturdóttir húsbóndans hafði fengið leyfi til að sækja skóla þar í grennd, sem kristniboðar starfræktu. Þar hafði hún lært að elska Drottin Jesúm. Heima gerðu allir gys að henni. Afi hennar var sérstaklega vondur við hana. Þegar hún sagði þeim biblíusögur eða söng sálma, sem hún hafði lært í skólanum, hlustuðu þeir að vísu á hana. En það gat ekki komið til nokkurra mála, að hún færi að tilbiðja Guð kristinna manna. Afi hennar barði hana eða jafnvel sparkaði í hana, ef hún ætlaði að biðja.
     Stúlkan var ekki nema átta ára gömul, en hún gafst ekki upp. Hún elskaði afa sinn og hún var viss um, að Drottinn mundi heyra bænir hennar fyrir honum á endanum.
     Einn dag gekk hann á borgarmúrinn til að litast um og vita, hvort nokkrir hermenn væru að koma. Hann kom aftur, æstur í skapi, tók í litlu telpuna, hristi hans eins og til að leggja áherslu á orð sín, og sagði: “Hafir þú nokkurn tíma beðið, þá skaltu biðja núna! Biddu nú til Guðs þíns um að hann bjargi okkur. Mikill herflokkur er að nálgast borgina. Þeir koma auðvitað hingað, eins og áður, til að ræna frá okkur. Biddu, biddu nú!” Og hann leiddi hana inn í tómt herbergi og lokaði hurðinni.
     Litla stúlkan varð undrandi, en hún var ekki hrædd. Móðir hennar í næsta herbergi heyrði bænarorð hennar.
     ”Ó, Drottinn Jesús, ég er svo sæl. Það er dásamlegt! Afi hefur sagt mér að biðja. Þú veist, að hann hefur áður barið mig, þegar ég ætlaði að biðja, en nú hefur hann beinlínis beðið mig um að biðja! Ó, Drottinn Jesús, nú er tækifærið þitt! Sýndu afa mínum að þú svarar bænum okkar. Láttu ekki hermennina koma í húsið okkar. Drottinn, nú er tækifærið þitt!”
     Á meðan voru hermennirnir að koma inn í borgina. Í broddi fylkingar reið foringi á hesti sínum. Þeir komu beint þangað, sem þeir höfðu áður verið, að húsi þessarar fjölskyldu. Foringinn ætlaði að ríða inn í garðinn, en er hann kom að hliðinu, fældist hestur hans. Hann vildi ómlögulega fara inn um hliðið. Foringinn rak sporana í lendar hestsins og notaði svipuna óspart. En hesturinn ýmist prjónaði eða gekk aftur á bak. Hann fékkst ekki með nokkru móti til að fara inn um hliðið.
     Og litla stúlkan inni fyrir hélt áfram að biðja: “Ó, Drottinn, nú er tækifærið þitt!”
     Loks gafst foringinn upp og sagði við menn sína: “Þessi staður hlýtur að vera fullur af öndum. Við sjáum þá ekki, en hesturinn sér þá. Enginn má fara inn í þetta hús!” Og hann sneri við og fór til annars staðar.
     Sama kvöld kom gamli Múhameðstrúarmaðurinn, afi stúlkunnar, til að finna kristniboðann. Með tárin í augunum sagði hann: “Segðu mér frá þeim Guði, sem þannig svarar bæn. Kenndu mér líka að biðja til hans!”

Sönn saga eftir frú Howard Taylor             

Norðurljósið


Bók bókanna

     Charles Dickens, sem skrifaði “Davíð Copperfield” og fjöldamargar aðrar ágætar sögur, skrifaði yngsta syni sínum, er hann var að fara úr föðurgarði:
     ”Ég læt Nýja testamentið á meðal bóka þinna í sama tilgangi og með sömu von og þegar ég skrifaði það upp á léttu máli fyrir þig, þegar þú varst lítið barn. Það er vegna þess, að það er hin besta bók, sem nokkurn tíma hefur verið til eða nokkurn tíma verður til í heimi þessum, og vegna þess að hún mun kenna þér hinar bestu lífsreglur, sem nokkur maður getur fengið sér til leiðbeiningar, ef hann vill reynast sannur og köllun sinni trúr.”

Norðurljósið


Fangi í frystiklefa

     Ég sótti alltaf sunnudagaskóla meðan ég var lítill drengur, en þegar ég var tólf ára gamall, missti ég allan áhuga fyrir sunnudagaskólanum. Ég fór að vinna á sunnudögum í staðinn fyrir að sækja kirkju. Aðdráttarafl heimsins og græðgi í peninga höfðu hertekið mig. Meðan ég var í háskóla fór ég aðeins einu sinni í kirkju. Annan þann tíma var Guð að kalla á mig, og ég vissi það. Ég hélt að ég þyrfti ekkert nema gott líferni til þess að vera sannkristinn. Jesús var að kalla á mig að iðrast synda minna og trúa á sig, mér til hjálpræðis, en með þrjóskufullri neitun hafnaði ég hjálpræðisboði hans. Þrátt fyrir uppreisn mína var þó í hjarta mínu löngun eftir einhverju, sem ég vissi ekki hvað var.
     Sunnudag nokkurn að sumri til gekk ég síðdegis inn í mjólkurstöðina, þar sem ég vann. Í byggingunni var frystiklefi fullur af rjómaís. Ég gekk þangað inn til að fá mér ís, en þegar ég sneri mér við til að ganga út, varð ég undrandi og skelfingu lostinn. Dyrnar höfðu lokast og fjöðrin, sem mátti opna með, var brotin. Ég var kominn í gildru. Af öllu afli og þunga lamdi ég á hurðina. Ég gat samt ekki brotið hana, því hún var nærri 30 cm á þykkt. Þegar mér varð ljóst að tilraunir mínar gætu engan árangur borið, fór ég að gera ráðstafanir til að varðveita líf mitt sem lengst. Ég varð fljótt dofinn af kulda. Ég var í sumarklæðnaði en hitamælirinn sýndi 25 stiga frost. Enginn annar maður var í húsinu og ekki var um neina hjálp að ræða fyrr en á mánudagsmorgun, 12 tímum síðar. En ég vissi að hún kæmi þá of seint, ég yrði þá frosinn til dauða. Litlar sem engar líkur voru til þess að mér yrði bjargað.
     Endadægur mitt var komið. Ég hljóp fram og aftur og sveiflaði handleggjunum í fánýtri tilraun til að halda á mér hita. Til að fá eitthvað mér til skýlis hellti ég tugum rjómaíshellum úr pappírspokunum, sem þær voru í, og setti marga poka á hendur og fætur mína og loks stóran poka á höfuð á mér. Það var mjög erfitt að koma pokunum á mig því að fingurnir voru orðnir stirðir og hálffrosnir.
     Skelfilegar hugsanir sóttu á mig, meðan á þessu stóð. Mundi ég virkilega deyja? Skoðaðir í skæru ljósi eilífðarinnar, hvaða gildi höfðu allir þessir peningar, sem ég hafði lagt svo hart á mig til að eignast? Hræðileg byrði synda minna og hve óviðbúinn ég var að mæta Guði, lagðist þungt á mig. Ég var ekki búinn undir dauðann né að mæta Guði og ekki þekkti ég heldur hjálpræðisveginn. Tíminn leið mjög hægt. Eftir fjögurra tíma baráttu við kuldann greip krampi vöðva líkamans. Ég lagðist örmagna á gólfið, stirðnaði upp og gat ekki hreyft mig.
     Átta klukkustundir mundu líða þangað til mér bærist hjálp. Fyrir þann tíma yrði ég löngu dáinn. Mín eina von var miskunn Guðs. Í dýpstu örvæntingu hrópaði ég: “Drottinn, hjálpaðu mér út héðan! Ég er að deyja, en ég er ekki búinn undir dauðann. Ég veit, að þú ert hinn eini, sem getur bjargað mér. Drottinn, ef þú bjargar mér úr þessum stað, þá skal ég gera hvað sem þú vilt. Ég vil þjóna þér alla mína æfi.”
     Skömmu eftir að ég lauk bæn minni og heitbindingum, hvarf mér öll tilfinning og meðvitund.
     Guð hafði engu að síður heyrt örvæntingarhróp mitt. Hann sendi í hjarta móður minnar óróleikatilfinningu, að eitthvað væri að mér. Hún hringdi til mágs míns og sagði honum frá þessu. Drottinn snart hjarta hans og leiddi hann sem með kraftaverki til þess staðar, þar sem ég var lokaður inni. Mér var skjótt bjargað og komið á sjúkrahús, þar sem ég náði mér aftur að lokum.
     Skömmu eftir þetta heyrði ég fagnaðarerindið um hreinsandi blóð Krists. Samstundis tók ég á móti honum sem persónulegum frelsara mínum. Ólýsanlegur friður og gleði fyllti hjarta mitt þegar í stað. Það var sælasta augnablik, sem ég hafði lifað. Í persónu Drottins Jesú Krists fann ég það, sem ég hafði alla mína æfi verið að leita til einskis.
     Ég minntist þeirra heita, sem ég hafði gert Drottni. Með hjartað fullt af þakklæti til Krists, sem dó til að frelsa mig, fór ég í biblíuskóla til að búa mig undir framtíðarstarf á akri trúboðans.

Graham Bagg                      

Norðurljósið


Nauðsynlegasta áhugamálið

     Riddaralið lögreglunnar í Kanada kom einu sinni að litlum kofa, langt frá mannabyggðum í Norður-Alberta, og fann þar landkönnuð að nafni James E. Michael, sem hafði verið á ferð einn síns liðs. Michael var látinn og sat enn í stól sínum. Hann hélt á sendibréfi og var panna á hnjám hans, sem hann hafði auðsjáanlega notað sem skrifborð.
     Þetta voru orðin, sem hann hafði skrifað, sennilega rétt áður en hann skildi við:
     ”Sólin skín, mamma mín, en mér er samt svo kalt. Ég get enn gengið um lítillega, en það er mjög lítið. Ég er svo máttfarinn vegna þess að það er svo langt síðan ég hef smakkað mat. Það eru nú orðnir fjörutíu dagar síðan ég hef séð annan mann. Hér eru nokkur tímarit, en sögurnar eru svo heimskulegar. Ég hef líka nokkur spil, en ég hef ekki gaman af að spila einn núna. Hið eina, sem ég hef áhuga á núna, er – hvort Guð muni fyrirgefa mér syndirnar mínar.”
     Fyrr eða síðar verður öllum áhugamál að vita þetta, hversu digurlega sem þeir kunna að tala, meðan þeir eru heilir heilsu og dauðinn virðist vera langt í burtu.
     Væri ekki skynsamlegast að láta þetta vera okkur áhugamál nú?

Norðurljósið


Heimska vantrúarinnar

     Tveir drengir voru að leika sér úti. Þeir tóku eftir því, að sólin var að ganga undir. Annar þeirra sagði: “Sjáðu hve sólin hefur færst langa leið! Það er stutt síðan hún var á bak við þetta tré, en núna er hún næstum því komin í hvarf!”
     ”Já, en þú manst víst eftir því, sem pabbi var að segja okkur um daginn, að það væri ekki sólin sem færði sig, heldur jörðin okkar.”
     Hinn drengurinn hristi höfuðið. “Nei, sólin færist, því að ég sá til hennar. Og jörðin hefur verið kyrr allan tímann, því að ég hef staðið á henni. Ég trúi því, sem ég get séð með eigin augum.”
     ”En ég trúi heldur því sem pabbi segir mér,” svaraði hinn.
     Margir stæra sig af vantrú sinni og segja: “Ég trúi aðeins því, sem ég get séð með eigin augum.” Og þeir verða eins heimskir og drengurinn, sem trúði því að sólin snerist í kringum jörðina.
     Aðrir eru vitrari og segja: “Ég trúi því sem minn himneski Faðir segir, jafnvel þótt það virðist ekki vera í samræmi við það sem ég sé og þreifa á.” Og þeir hafa rétt fyrir sér, eins og drengurinn, sem trúði því að jörðin snerist kringum sólina, vegna þess að faðir hans hafði sagt honum það.

Norðurljósið


Stingur í fætinum

     Fyrir mörgum árum reið sveitamaður nokkur inn í kaupstað og þurfti hann að afgreiða þar mörg erindi, og var það löng ferð. Það var þegar orðið framorðið, er hann lagði af stað heimleiðis.
     ”Ertu ekki hræddur við að ríða svona langa leið í myrkrinu með svo mikla peninga í vasanum?” spurði vinur hans. “Það er svo dimmt, ég myndi ráða þér að gista hér í nótt.”
     ”Nei, ég þakka fyrir,” svaraði bóndinn, “fólkið bíður eftir mér heima og það verður hrætt um mig, ef ég kem ekki. Drottinn er verndari minn, og undir vernd hans er ég eins óhultur á degi eins og á nóttu, eða er ekki svo?”
     Það var svo sannarlega mjög dimmt, en hann hafði góðan hest og reið fljótt af stað og var alls óhræddur á leiðinni. Hann náði og slysalaust heim.
     Árin liðu hjá og bóndi þessi var orðinn gamall og gráhærður. Einn dag kom til hans ókunnugur maður og beiddi hann viðtals í einrúmi.
     ”Manstu eftir því, þegar þú fórst heim úr kaupstaðnum eina nótt fyrir mörgum árum með mikla peninga í vasanum?”
     ”Ja-a-á, é g held ég muni eftir því,” svaraði bóndinn.
     ”Tókstu ekki eftir neinu sérstöku á leiðinni?”
     ”Ekki eftir neinu. Hvers vegna spyrðu?”
     Nú sagði hinn ókunnugi, að hann hefði einu sinni verið stigamaður (ræningi) og hefði hann verið staddur í kaupstaðnum, þegar hann fékk að vita það, ásamt öðrum ræningjum, að bóndi þessi ætlaði að halda heim þá sömu nótt einn í myrkrinu og að hann mundi hafa meðferðis allmikið af peningum. Þeir fóru út á undan bóndanum og settu upp digran stálþráð þvert yfir veginn á milli tveggja trjáa, þar sem leið hans lá, mátulega hátt til þess að þráðurinn tæki undir hökuna á honum og kippti honum svo af hestbaki. Vegurinn var góður á þeim bletti, og þeir áttu þess vegna von á því, að bóndinn kæmi þangað á hraðri ferð. Hefði allt gengið að óskum þeirra, hefði orðið hægðarleikur að ræna hann þar peningum hans.
     Maðurinn lýsti því, hvernig þeir félagar biðu með óþreyju bak við trén þangað til þeir heyrðu til hestsins og hlökkuðu til að stökkva á bráð sína. Nú kom hesturinn nær, og nú hlaut maðurinn að falla. En bíðum við! – Rétt í sömu svifum og hann kemur þar, sem þráðurinn er, hneigir maðurinn sig lágt, fer undir þráinn og heldur svo rólegur áfram leiðar sinnar án þess að stanza.
     Bóndinn varð steinhissa, er hann heyrði þessa sögu. Hann varð hugsi um stund, og sagði síðan: “Já, ég man eftir því nú, - það er rétt, - já , nú skil ég það allt saman! Ég held að ég hafi ekki hneigt mig nema einu sinni alla leiðina, en þá var það vegna þess að ég fékk allt í einu sting í annan fótinn. Hann var svo sár, að ég hneigði mig ósjálfrátt og tók í fótinn með hendinni. Nú sé ég að Drottinn sendi þennan sára sting, - sem hvarf þó undir eins aftur, - til þess að frelsa mig frá stigamönnunum. Þetta sýnir okkur, að hann efnir fyrirheit sín og yfirgefur ekki þá, sem setja traust sig á hann.”

Norðurljósið


Rökrétt hugsun!

     Sápuverksmiðjueigandi nokkur og trúaður kristinn maður voru að ganga saman um götur stórborgar einnar. Var hinn fyrrnefndi vantrúarmaður og notaði tækifærið til þess að mótmæla trú kunningja síns. Hann sgði: “Boðskapurinn, sem þið eruð alltaf að predika, hefir ekki gert mikið gagn í heiminum. Mikil er spillingin alstaðar og margir vondir menn.”
     Eftir litla stund mættu þeir drenghnokka, sem var að leika sér í götuforinni, og var þar af leiðandi orðinn mjög óhreinn. Þá segir hinn kristni: “Sápan, sem þú býrð til í verksmiðjunni þinni hefir ekki gert mikið gagn í heiminum. Drengurinn þarna er mjög óhreinn og það er mjög margt fólk, sem er óhreint.”
     ”Jú, sápan mín er góð sápa, ef menn fengjust aðeins til að nota hana,” svaraði sápugerðarmaðurinn.
     ”Og það er nú einmitt það,” svaraði hinn, “náðarboðskapurinn, sem ég hef fest von mína á, er kraftur Guðs til hjálpræðis, ef menn fengjust aðeins til þess, að notfæra sér hann!”

Norðurljósið


Einkennileg mynd

     Í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, er mjög merkilegt eintak af stjórnarskrá þeirrar þjóðar. Ef maður athugar það nærri sér, virðast línurnar vera óreglulegar og letrið gert ýmist með feitum eða mjóum pennum. En þegar maður stendur dálítið frá og horfir á myndina, sér maður undir eins andlit Georgs Washingtons. Letrið er skrifað á þennan hátt, til þess að gera andlitsmyndina. Hann, sem er talinn “faðir þjóðar sinnar,” og varð til þess, að hún fékk sína eigin stjórnarskrá, er sýndur þannig í þessu eintaki af handaverki hans.
     Á sama hátt sést mynd Jesú Krists í Ritningunni. Ef við lítum á Gamla testamentið, virðist margt óreglulegt og lýsingarnar ýmist of stuttar eða of langar. En þegar við lítum á heildina, sjáum við, að bókin er öll skrifuð til þess að hjálpa okkur að skilja Jesúm Krist, og til að undirbúa menn til að taka við honum. “Sjá, ég er kominn, - í bókinni er ritað um MIG, - ég er kominn til að gera þinn vilja, Guð minn!” (Heb. 10:7)

Norðurljósið


Bænin og Orðið

     Bænin er andardráttur sálarinnar. Sérhverri sál, sem lifir gagnvart Guði, er nauðsynlegt að biðja. Aðeins þeir, sem dauðir eru í misgerðum og syndum, geta þolað að vera án bænar. En fæða sálarinnar er Guðs orð. Heilbrigðri sál er jafnmikil þörf á því, að neyta þessarar fæðu eins og heilbrigðum líkama er nauðsynlegt að neyta líkamlegrar fæðu.

Norðurljósið


     

Hér getur þú lesið ávarp til þín frá sumarbúðastjóra í seinasta Fréttabréfi Ástjarnar.

 


| Aðalsíða | Hvað og hvar er Ástjörn? | Panta dvöl eða fá upplýsingar | Hvað er hægt að gera við Ástjörn?

Fyrir þá, sem þegar hafa pantað dvöl | Gott efni fyrir "gamla" Ástirninga