Arthur Gook
Æviágrip
Arthur Charles Gook fæddist í London 11. júní 1883. Faðir hans var kennari. Arthur, sem var þriðji í röð fimm bræðra, hóf nám í menntaskóla. Þar naut hann sín verulega, og komu þá skarpar gáfur hans vel í ljós. Hlaut hann verðlaun til háskólanáms, en fékk ekki notið vegna andstöðu föður síns. Urðu það honum sár vonbrigði. Horfinn frá námi hóf hann störf hjá einu stærsta bókaútgáfufélagi í London. Síðar varð hann einkaritari Mr. Scott, umsvifamikils bókaútgefanda í London. Þar lifði hann og hrærðist innan um bækur. Sú reynsla varð honum dýrmæt síðar meir.
En von bráðar urðu straumhvörf í lífi hans, er hann gekk til hlýðni við trúna á Jesúm Krist. Hann fékk köllun frá Guði til að þjóna honum á Íslandi. Um það land vissi hann sáralítið, helzt það, sem honum var sagt, að á Íslandi væri töluð danska! Hann hélt því til Danmerkur til að læra dönsku, sem kom honum raunar að góðu gagni. Hingað kom hann svo 1905 og settist að á Akureyri. Hann giftist Florence E. Gook (f. 1. des. 1883) tveimur árum síðar.
Þegar til Íslands var komið blöstu hvarvetna við honum verkefni, sem skoruðu hann á hólm, ungan manninn með brennandi áhuga. Og áhugamálin urðu margþætt.
Fyrsta verk hans var að stofna kristinn söfnuð, Sjónarhæðarsöfnuð, sem enn starfar á Akureyri, en auk almenns safnaðarstarfs rekur hann barna- og unglingastarf það, sem kennt er við Ástjörn í Kelduhverfi eða Sumarheimilið Ástjörn, sem Arthur stofnaði 1946.
Jafnframt hinu andlega starfi ferðaðist hann um landið þvert og endilangt til að kynnast fólki og högum þess. Því urðu heilbrigðismál og samgöngumál honum einnig mjög hugstæð. Þegar hann stofnaði tímaritið Norðurljósið árið 1912, birti hann þar reglulega um árabil fræðandi greinar um heilbrigðismál. Hann var lærður hómópati og stundaði þær lækningar hér á landi í nær hálfa öld. Varð hann mjög lánsamur og vinsæll í því starfi. Öllum bréfum í því sambandi hélt hann rækilega til haga sem og sjúklingabókum sínum og skýrslum allt frá árinu 1907 og munu vera einstakar heimildir um smáskammtalækningar hér á landi.
Það sýnir vel stórhug Arthurs, er hann vakti máls á því á fyrirlestraferðum sínum á Englandi, hve Íslendingum væri mikil nauðsyn vegna strjálbýlis og einangrunar að eignast útvarpsstöð. En sá hafði verið langþráður draumur hans. Hann rættist raunar á endanum undir lok þriðja áratugarins, er útvarpsstöðin á Sjónarhæð stóð fullbúin með löggildu leyfi yfirvalda og útsendingar hafnar, en þá kom reiðarslagið með nýrri ríkisstjórn. Stöðin var bönnuð. Arthuri varð það slíkt áfall, að hann minntist aldrei framar á útvarpsstöðina einu orði, hvorki í ræðu né riti. En seint mun gleymast, hvernig þáverandi stjórnvöld lítilsvirtu þessa höfðinglegu gjöf margra fórnfúsra gefenda og gjörðu útvarpsstöðina á Sjónarhæð að engu.
Bókaútgáfa var eitt áhugamála Arthurs. Gaf hann út fjölda kristilegra bóka og rita. Sjálfur varð hann þekktur rithöfundur, skrifaði bæði á ensku og íslenzku allmargar bækur, sem náðu mikilli útbreiðslu og þýddar voru á að minnsta kosti ellefu tungumál. Voru þetta aðallega trúvarnarrit. Á hnattreisu sinni 1950-51 sannreyndi hann, hve vel þær greiddu götu hans.
Árið 1955, eftir hálfrar aldar starf á Íslandi í þjónustu Guðs og manna, fluttist Arthur til Englands að læknisráði. En þótt líkamsþrekið hefði minnkað, var andlegur þróttur hans óskertur. Og aldrei féll honum verk úr hendi. Því tók hann að vinna að því, sem stóð honum hjarta næst, að þýða Passíusálma séra Hallgríms Péturssonar á móðurmál sitt. Það er vönduð og fögur þýðing, enda var hann sjálfur ágætt skáld bæði á ensku og íslenzku. Honum tókst að ljúka þessu vandasama verki skömmu áður en hann dó 18. júní 1959, þá nýorðinn 76 ára. Að honum látnum var handrit og útgáfuréttur þýðingar hans ánafnað Hallgrímskirkju í Reykjavík.
Við ævilok hefði hann tæpast getað reist sér fegurri bautastein en þetta síðasta verk eftir hálfrar aldar óeigingjarnt starf og þjónustu við "fóstru sína" eins og hann gjarna kallaði Ísland.
|