Ástjörn

Færeyingar hafa tengst Ástjörn sterkum böndum um árabil.
Ef ætti að lýsa þeim tengslum myndu orðin gjafmildi og fórnfýsi
lýsa Færeyingum best. Þeir eru margir sem hafa komið eða
"sent" hjálpina með bænum sínum ásamt allskonar gjöfum.
Það vantar aldrei verkefnin við Ástjörn. Það er gaman að geta boðið
börnunum góða og snyrtilega aðstöðu sem er starfinu til sóma.
Mörg handtök leynast á bakvið undirbúninginn áður en börnin koma.
Takk fyrir að biðja fyrir starfinu og gera þetta fyrir Drottin.

Tengiliður Ástjarnar í Færeyjum er Victor Danjálsson sem margoft hefur komið til Íslands.
Skoða sumarbúðirnar Zarepta í Færeyjum.

 
 Victor Dánjalsson ásamt Gunnleyg konu sinni.

maí/júní 2009
Altmuligmenn gera allt mögulegt
Frá 30. maí til 3. júní voru 20 færeyskir sjálfboðaliðar og alltmuligmenn við Ástjörn og gerðu allt mögulegt gott fyrir starfið. Eins og áður fór Victor fyrir hópnum. Þessir fagmenn settu upp nýja varmadælu í borðsalnum, endurnýjuðu rólurnar, lagfærðu mörkin, settu handrið á Gamla hús, endurbættu sturtuaðstöðuna, unnu við nýja rafmagnstöflu í Gamla húsi og hún tekin í gagnið um leið og sú gamla var tekin niður, einnig var unnið að allskonar smíðavinnu, málningarvinnu, járnsmíðavinnu, tölvumálum og allskyns fleiri verkefnum sem of langt mál væri að telja upp. Það er enginn verkefnaskortur við Ástjörn. Hafið bestu þakkir fyrir. Hér eru 100 myndir.

maí/júní 2008
Nýja viðbyggingin gerð fokheld og klædd
25 færeyskir sjálfboðaliðar og fagmenn á ýmsum sviðum dvöldu við Ástjörn 27. maí - 3. júní. Victor Dánjalsson fór fyrir hópnum eins og undanfarin mörg ár. Nú var nýja viðbyggingin gerð fokheld, klædd að utan og máluð. Þegar hún kemst að fullu í gagnið mun hún bæta mikið alla aðstöðu í eldhúsi og uppvaski í Gamla húsi. Auk þessa sinntu Færeyingarnir margskonar öðrum verkum og viðhaldi, t.d. var Hvammur klæddur, bátaviðhald, skipt um glugga og margt fleira. Hjálpsemi og örlæti Færeyinganna er meira virði en orð fá lýst. Og þeir gefa með glöðu geði. Guð elskar glaðan gjafara! Fullt af myndum hér.

júní 2007
Endurbætur og viðhald
12 færeyskir sjálfboðaliðar dvöldu við Ástjörn 29. maí - 6. júní við ýmiskonar viðhald og endurbætur. Eins og venjulega voru fagmenn á ferð og Victor Dánjalsson fór fyrir hópnum. Meðal þess sem gert var, varð að setja upp fleiri neyðarútganga í Gamla húsi, smíða skýli á þvottahús, bæta við pallinn á Maríubúð og margt fleira. Guð launi þeim hjálpina! Margar myndir hér.

8. júní 2006
Grunnur að viðbyggingu og gólfefni á Maríubúð
17 færeyskir sjálfboðaliðar dvöldu við Ástjörn 30. maí - 8. júní til að halda áfram endurbótum á Gamla húsi. Þar voru á ferð fagmenn á ýmsum sviðum og hafa flestir þeirra komið ár eftir ár. Victor Dánjalsson fór fyrir hópnum eins og svo oft áður. Þeir steyptu grunn að nýrri viðbyggingu við Gamla hús, tæplega 70 fermetra. Þeir lögðu líka slitsterkt parket á öll herbergin og ganginn í Maríubúð. Einnig endurnýjuðu þeir forstofuna í Maríubúð og skiptu þar um hurðir og í þvottahúsinu. Það er óhætt að segja að það verði miklar breytingar til batnaðar við Ástjörn í hvert skipti sem vinnuhópur frá Færeyjum kemur. Guð blessi ykkur fyrir hjálpsemina!  289 myndir hér.

Endurbætur á Gamla húsi í maí 2005
19 færeyskir sjálfboðaliðar komu og settu nýja einangrun, glugga og klæðningu á Gamla hús að framan og máluðu það að lokum. Einnig voru Laufskálar málaðir og dittað að mörgu fleiru. Þúsund þakkir!!!  283 myndir hér.

Vorið 2003: Skógarlundur (þriðja starfsmannahúsið)
Tveir hópar af færeyskum sjálfboðaliðum - 6 og 9 manna - komu og reistu þriðja starfsmannahúsið. Einnig voru herbergin í Maríubúð endurnýjuð. Guð launi ykkur óeigingjarnt starf!  85 myndir hér.

Nýtt starfsmannahús 2002: Færeyjalundur

Aftur komu sjálfboðaliðar frá Færeyjum og byggðu nýtt og fallegt starfsmannahús vorið 2002.


Færeyingar að byggja Færeyjalund.

Færeyjalundur tilbúinn.

    

Bjarkarlundur byggður vorið 2000

Sjálfboðaliðar frá Færeyjum komu og byggðu nýtt og fallegt starfsmannahús í júní 2000. Hér eru nokkrar myndir sem sýna húsið verða til. Guð blessi þá og launi þeim fyrir erfiðið.

Húsið var fyrst smíðað og sett saman í Færeyjum og síðan flutt ósamsett til Íslands þar sem færeysku smiðirnir og sjálfboðaliðarnir settu það saman aftur.


| Aðalsíða | Hvað og hvar er Ástjörn? | Panta dvöl eða fá upplýsingar | Myndir og möguleikar

Fyrir þá, sem þegar hafa pantað dvöl | Gott efni fyrir "gamla" Ástirninga