Mynd frá unglingavikunni.

Upplýsingar um sumarbúðadvöl við Ástjörn 2024

Uppl. í síma 462 3980 og 862 3980 (Árni, Magnús eða Hanna)

Panta hér: Skráningarform.

Starfið við Ástjörn hefst þann 20. júní n.k. og lýkur fyrir miðjan ágúst. Þrír fyrstu flokkarnir eru fyrir 6-12 ára drengi og stúlkur og eru þeir 8 sólarhringar. Fjórði flokkurinn er fyrir 13-15 ára unglinga og er hann í 7 sólarhringa. Í öllum flokkunum dvelja drengir og stúlkur á sama tíma en gista í sitt hvoru húsinu. Dagskráin skiptist stundum eftir aldri og/eða kynjum en margt er þó gert í sameiningu.

Sérstaða Ástjarnar
Ástjörn eru einu sumarbúðirnar á Íslandi sem eru í þjóðgarði. Skógur er í kringum Ástjörn og Ásbyrgi er í aðeins um 1 km fjarlægð og einnig er stutt í Hljóðakletta og fleiri náttúruperlur. Sjá myndir og video frá staðnum.
Farið er í alls konar leiki og einnig eru margar keppnir og eiga börnin kost á því að vinna sér inn fallega verðlaunapeninga og taka með heim. Á hverju sumri er keppt um fjölmarga verðlaunapeninga og það er gaman að eiga einn slíkan til að hafa í herberginu heima hjá sér. Þó leggjum við áherslu á hóflegan keppnisanda og að aðalatriðið sé að njóta leikjanna og sýna drengskap og heiðarleika.
Ólíkt mörgum öðrum sumarbúðum þurfa börnin ekki að koma með svefnpoka heldur fá þau sæng, kodda og rúmföt á staðnum. Þvottahús er við Ástjörn, sem sér um að þvo allan fatnað af börnunum. Þegar barnið kemur heim að lokinni sumardvöl eiga nær öll föt að vera hrein í töskunni nema þau sem barnið var í daginn fyrir heimferð.

Dvalargjald
Dvalargjaldið er rúmlega 10 þús. kr. pr. sólarhring,
Innifalið í dvalargjaldinu er rútuferð Akureyri-Ástjörn-Akureyri. Það tekur um 2 klst. að aka milli Akureyrar og Ástjarnar.

  Flokkar fyrir 6-12 ára börn:
1. flokkur: 8 sólarhringar 20.-28. júní (fimmtud.-föstud.) 83.900 kr.
2. flokkur: 8 sólarhringar 4.-12. júlí (fimmtud.-föstud.) 83.900 kr.
3. flokkur: 8 sólarhringar 18.-26. júlí (fimmtud.-föstud.) 83.900 kr.

Laugardaginn 13. júlí stendur til að hafa opið hús.
Ástirningar og foreldrar þeirra, vinir og velunnarar eru velkomnir. Nánar auglýst síðar.

Unglingavika fyrir 13-15 ára:
4. flokkur: 7 sólarhringar 1.-8. ágúst (fimmtud. - fimmtud.) 69.900 kr.

Könnuðurinn. Flokkur fyrir ungt fólk, sem vill læra meira um Biblíuna:
5. flokkur: 3 sólarhringar 9-12. ágúst (föstud. - mánud.) 17.900 kr.
Sendið umsókn í tölvupósti á astjorn@gmail.com

Þegar dvalargjaldið er reiknað fyrir hvern dag er þetta með allra lægstu dvalargjöldum í sumarbúðum á Íslandi, ef ekki þau lægstu, eftir því sem við komumst næst. Auk þess veitir Ástjörn þá þjónustu að þvo fötin af börnunum á meðan á dvöl stendur. Sjá meira um dvalargjaldið hér)
    Systkinaafsláttur. Annað systkinið fær 20% afslátt og þriðja systkinið fær 30% afslátt. Þau þurfa ekki að dvelja í sama flokki. Hafið samband til að fá meiri upplýsingar og ef um fleiri systkini er að ræða.

Greiðsla og gögn
Þegar pöntun hefur verið gerð þá er venjulega greiðsluseðill sendur í heimabanka. Greiða þarf greiðsluseðilinn fyrir eindaga til að tryggja barninu pláss. Ef greitt er eftir eindaga er ekki hægt að tryggja barninu pláss, t.d. ef flokkurinn er við það að fyllast. Hluti af dvalargjaldinu - 5000 kr. - er óafturkræfur ef hætt er við dvöl.
Greiðslumáti:
Greitt er með greiðsluseðlum sem berast í heimabanka (eða pósti ef þess er óskað).

Sumarbúðafargjöld
með Icelandair
Á hverju sumri koma mörg börn utan af landi til Ástjarnar. Vegna samnings okkar við Icelandair er hægt að fá fargjaldið Reykjavík-Akureyri-Reykjavík á betri kjörum. Sjá verð á astjorn.is/flug. Ástjörn á frátekin sæti í flugvélinni. Bókanir skulu gerðar hér með góðum fyrirvara. Ef betri tilboð bjóðast hjá flugfélaginu þá hvetjum við foreldra til að nýta sér þau með góðum fyrirvara, en sætafjöldi slíkra tilboða er mjög takmarkaður.

Mynd: Á kajak og árabátum á Ástjörn. Ljm. MJH

Unglingavika fyrir 13-15 ára
Í sumar verður líkt og undanfarin ár dvöl við Ástjörn fyrir 13-15 ára unglinga (drengi og stúlkur) 1.-8. ágúst (7 sólarhringar).
Það er alltaf gaman að dvelja við Ástjörn, bæði fyrir eldri Ástirninga og einnig fyrir þá, sem hafa ekki kynnst staðnum áður sem börn. Margt er hægt að gera og má t.d. nefna bátaferðir, skoðunarferðir um nágrennið, íþróttakeppni af ýmsu tagi, kvöldvökur, útreiðartúra og ekki síst dýrmætar stundir, þar sem við lærum úr orði Guðs.
Unglingavikan kostar 69.900 kr. og innifalið er rútuferð á milli Akureyrar og Ástjarnar.
Ef þú ert á aldrinum 13-15 ára þá ertu velkominn á unglingavikuna!

Að lokum
Við viljum hvetja foreldra til að skrá börnin sem fyrst svo að þau komist örugglega að á þeim tíma, sem hentar best. Hafið samband ef eitthvað er óljóst. Verið velkomin til Ástjarnar í sumar!

Viltu panta? Skráningarform hér.


Sumarbúðirnar Ástjörn:
Kelduhverfi - 671 Kópasker - Netfang: astjorn@gmail.com
Kt. 580269-0609 – Landsbanki Íslands 0162-26-18363

Aðsetur á Akureyri: Sími 462 3980 – Pósthólf 418 – 602 Akureyri
Sumarbúðastjóri: Árni Hilmarsson – Sími 860 2262


| Aðalsíða | Hvað og hvar er Ástjörn? | Panta dvöl eða fá upplýsingar | Myndir og möguleikar

Fyrir þá, sem þegar hafa pantað dvöl | Gott efni fyrir "gamla" Ástirninga