Fréttamolar

feb. 2018:
Skráning fyrir sumarið 2018 við Ástjörn!

Það er helst fréttnæmt um þessar mundir að nú er hægt að skrá sig í sumardvöl við Ástjörn. Við gerum okkar ítrasta til að hafa dvölina sem ódýrasta svo að sem flest börn hafi tækifæri til að koma. Upplýsingar og pantanir í síma 462 3980 en einnig er hægt að panta hér. Krakkar, við hlökkum til að sjá ykkur í sumar!

maí 2014
Endurbætur á Gamla húsi
22 færeyskir sjálfboðaliðar eru nú við Ástjörn til að halda áfram endurbótum á Gamla húsi, eins og áður eru fagmenn á ýmsum sviðum. Matsalurinn er tekinn í gegn, bæði gólf, veggir og loft. Victor Dánjalsson fer fyrir hópnum eins og svo oft áður. Færeyingarnir verða frá 27. maí til 4. júní. Sjá meira á facebook síðu Ástjarnar.

1. júní 2010:
130 manna heimsókn frá færeyjum, kaffiveitingar og söngstund með þeim síðdegis í dag. Allir velkomnir, sérstaklega fólkið í sveitinni!

Í dag, 1. júní, kemur 130 manna hópur frá Færeyjum í heimsókn til Ástjarnar að skoða þann stað og það starf sem þeir hafa stutt svo dyggilega í áratugi. Hópurinn stoppar aðeins í nokkrar klukkustundir við Ástjörn. Hluti hópsins verður vikulangt til að halda áfram vinnu við viðbyggingu Gamla húss, sem mun meðal annars hýsa nýtt eldhús og uppvöskunaraðstöðu. Einnig þarf að sinna almennu viðhaldi.

apríl 2010:
Ástjarnarmyndasýning í Reykjavík
laugardaginn 17. apríl kl. 16!

Sjá nánar um það hér.

10. ágúst 2009:
Irene Gook 100 ára

Irene Gook, dóttir Arthurs Gook stofnanda Ástjarnarstarfsins verður 100 ára þ. 11. ágúst 2009. Haldið verður upp á afmælið með með kaffidrykkju kl. 15 á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri. Hún afþakkar gjafir en vildi að Ástjörn nyti þess í staðinn. Reikn.nr. Ástjarnar er 0162-26-18363. Kt. 580269-0609.

20. apríl 2008:
Bogi Pétursson kominn heim til Drottins

Bogi Pétursson, fyrrverandi forstöðumaður Ástjarnar, lést fimmtudaginn
17. apríl á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, 83 ára að aldri. Útförin
verður frá Glerárkirkju, Akureyri, þriðjudaginn 29. apríl kl. 14.

Bogi fæddist á Mjóeyri við Eskifjörð og fluttist ungur til Akureyrar. Hann var forstöðumaður sumarbúðanna við Ástjörn í Kelduhverfi í 40 sumur í sjálfboðavinnu og kom auk þess að starfinu bæði fyrir og eftir þann tíma. Hann sýndi fádæma trúfesti í starfinu við Ástjörn og á Sjónarhæð. Hann þekkti frelsarann og vissi að Jesús Kristur er mikils megnugur. Hann vildi segja bæði ungum og gömlum frá honum. Hann var manna duglegastur að mæta á samkomur og bænastundir þótt hann væri önnum kafinn. Hann var óþreytandi að biðja fyrir þeim börnum og unglingum sem komu til Ástjarnar. Guð mun launa honum trúfesti hans. Bogi lét sér annt um fanga, og heimsótti þá reglulega í um 26 ár. Eftirlifandi eiginkona hans er Margrét Magnúsdóttir.

Ágúst 2007:
Fljótandi bókamarkaður
við bryggjuna Ægisgarð í Reykjavíkurhöfn

Kristniboðsskipið Logos II er með stóran bókamarkað með úrval af kristilegum bókum og öðrum góðum bókum um allt milli himins og jarðar á frábæru verði. Opið er frá kl. 10-22 og 12-22 um helgar en síðasti afgreiðsludagurinn er mánudagurinn 27. ágúst. Mest af efninu er á ensku en eitthvað er líka á íslensku. Sérstaklega er mikið úrval af barnabókum en einnig öðrum bókum fyrir ungt fólk auk tónlistar. Þetta er upplagt tækifæri til að kynna sér kristilegar bækur og tónlist. Kaffihús er um borð með ókeypis veitingum og er opið á sama tíma og bókamarkaðurinn. Börn undir 16 ára að aldri verða að koma í fylgd fullorðinna. Áhafnarmeðlimir eru allir sjálfboðaliðar og koma frá meira en 40 löndum. Meira um skipið á www.logos2.org.

Ungt fólk úr skipinu mun taka þátt í samkomu í Núpalind 1 í Kópavogi sunnudaginn 26. ágúst kl. 14. Allir eru velkomnir.

Veturinn 2006 -2007:
Fundir fyrir 6-12 ára!
Fundir á Sjónarhæð, Hafnarstræti 63 á Akureyri, á sunnudögum kl. 13:30-14:30
Starfið hefst sunnudaginn 24. sept. kl. 13:30.

Fótsporið er fyrir alla krakka á aldrinum 6-12 ára. Fundirnir byggjast aðallega á góðum félagsskap, söng, biblíusögum og spurningakeppnum. Allir krakkar eru velkomnir og ekki síst þeir sem hafa verið í Sumarbúðunum við Ástjörn. Hægt er að mæta hálftíma fyrir fund og leika sér fram að fundi.
www.astjorn.is/fundir

Unglingafundir fyrir 13 ára og eldri!
Fundir á Sjónarhæð, Hafnarstræti 63 á Akureyri, á fimmtudagskvöldum kl. 20-22
Starfið hefst fimmtudaginn 5. okt. kl. 20
Unglingafundirnir eru fyrir unglinga á aldrinum 13-16 ára. Fundirnir byggjast á góðum félagsskap, söng og biblíukennslu, einnig er alltaf gott að spjalla saman eða taka leik í fótboltaspilinu eða öðrum spilum.
www.astjorn.is/ung

Barna- og unglingastarf Ástjarnar og Sjónarhæð
astjorn@astjorn.is - sími 462 3980

Það eru líka fundir í Núpalind 1 í Kópavogi., nánar auglýst síðar.

27.-29. okt. 2006:
Betesdakórinn í heimsókn í Reykjavík!
Betesdakórinn frá Klaksvík í Færeyjum kemur í heimsókn síðustu helgina í október þar sem haldnar verða söngsamkomur með honum í Reykjavík. Þessi heimsókn er á vegum Akursins, kristins samfélags, í Núpalind 1 í Kópavogi.

Breiðholtskirkja: Laugardaginn 28. okt. kl. 20
Færeysk samkoma á Sjómannaheimilinu: Sunnudaginn 29. okt. kl. 17.

Fylgist með auglýsingum þegar nær dregur.
Allir eru hjartanlega velkomnir!

sumarið 2006:
60 ára afmæli Ástjarnar!
Laugardaginn 8. júlí n.k. munu Sumarbúðirnar Ástjörn í Kelduhverfi halda upp á 60 ára afmæli sitt. Frá kl. 14-18 eru sumarbúðirnar opnar fyrir gestum og gangandi. Allir eru hjartanlega velkomnir, ekki síst gamlir Ástirningar! Okkur þætti mjög vænt um að sjá sem flesta af þeim. Börn og fullorðnir eru velkomin að skoða sig um og njóta staðarins og náttúrunnar, þiggja veitingar og skreppa út á vatnið.

Í tilefni af afmælinu fá öll börn og unglingar í sumar ókeypis bol, húfu og mynd í ramma merkt með afmælismerki Ástjarnar. Öðrum er gefinn kostur á að kaupa bol, húfu, flíspeysu og nokkrar tegundir af 10x15sm myndum af Ástjörn í ramma á góðu verði. Hafið samband í síma 860 2262.

30. maí 2006
Áframhald á endurbótum á Gamla húsi
17 færeyskir sjálfboðaliðar komu í dag til að halda áfram endurbótum á Gamla húsi. Þar eru á ferð fagmenn á ýmsum sviðum. Victor Dánjalsson fer fyrir hópnum eins og svo oft áður. Þeir verða 30. maí til 8. júní. Meira um það hér.


Mars 2006:
Ástjarnarmyndasýning
miðvikudaginn 22. mars kl. 20 í Akrinum, Núpalind 1, 2. hæð, Kópavogi

Halló Ástirningar, starfsfólk, vinir, gamlir Ástirningar, unglingar,
foreldrar, afar og ömmur!

Miðvikudaginn 22. mars kl. 20 verður haldin myndasýning fyrir Ástirninga, starfsfólk Ástjarnar og alla þá sem hafa áhuga á að mæta. Sýndar verða ljósmyndir frá 2005 og eldri ljósmyndir og einnig myndband með helstu svipmyndum úr hverjum flokki síðasta sumar. Í lokin verður boðið upp á hressingu og þá gefst gott tækifæri til að spjalla saman og endurnýja kynnin. Endilega mætið á svæðið og notið tækifærið til að hitta aðra Ástirninga, bæði yngri og eldri. Allir eru velkomnir, og alveg sérstaklega bjóðum við velkomna fyrrverandi, núverandi og tilvonandi Ástirninga, einnig alla starfsmenn og velunnara. Núpalind 1 er beint á móti Smáratorgi, hinum megin við Reykjanesbrautina. Við erum á 2. hæð, beint fyrir ofan Snælandsvideó. Allir eru velkomnir, bæði börn, unglingar, foreldrar og allir sem hafa áhuga á að mæta. Aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis!

Látið endilega aðra Ástirninga vita, sem eru ekki með netfang. Sjáumst hress og kát!
Árni Hilmarsson, sumarbúðastjóri

P.S.: Það væri gaman að fá viðbrögð frá ykkur, sem eruð ákveðin í að mæta á staðinn. Sendið okkur endilega stuttan tölvupóst á astjorn@astjorn.is og segið að þið komið. Kveðja!


Maí 2005
Endurbætur á Gamla húsi

19 færeyskir sjálfboðaliðar komu og settu nýja einangrun, glugga og klæðningu á Gamla hús og máluðu það að lokum. Einnig voru Laufskálar málaðir og dittað að mörgu fleiru. Þúsund þakkir!!!  283 myndir hér.


Mars 2005:

Bogi 80 ára og

Margrét 75 ára 


| Aðalsíða | Hvað og hvar er Ástjörn? | Panta dvöl eða fá upplýsingar | Myndir og möguleikar

Fyrir þá, sem þegar hafa pantað dvöl | Gott efni fyrir "gamla" Ástirninga